Kirkjuárið

Íslenska

Kirkjuárið hefst með aðventunni.  Kirkjuárið skiptist í tímabil.  Á hverju kirkjuári eru þrjár stórhátíðir, jólin, páskar og hvítasunna.  Á jólunum er fæðingarhátíð frelsarans.  Páskar er stærsta hátíðin, hátíð upprisunnar.  Hvítasunnan er hátíð Heilags anda. 
          Á undan hátíðinni er undirbúningstímabil og eftir hátíðinni er tími eftirfylgdar.
          Til að minna okkur á hvernig tímabil er hverju sinni hafa þau hvert sinn lit.  Undirbúningstíminn (aðventa og fasta) er fjólublár og minnir á iðrun og íhugun.
          Hátíðin (jól og páskar) er hvít (stundum gyllt) og minnir á gleði og hreinleika, lit Jesú Krists.
          Aðrar hátíðir (hvítasunna, minningardagar postula, píslarvotta og trúarhetja) eiga sér rauða litinn og minnir á kærleika, blóð, baráttu og lit Heilags anda.
          Eftirfylgdin (sunnudagar eftir Þrettánda og eftir Þrenningarhátíð) er græn og minnir á von, vöxt og þroska.
Einn dagur á sér eigin lit, Föstudagurinn langi, svartan og minnir hann okkur á sorgina.
Litirnir sjást oft á messuklæðum prestsins og jafnvel á búnaði altarisins.