Bænin er andardráttur trúarinnar. Án hennar deyr trúin. Líf í bæn er samfélag með Guði. En án samfélags við Guð er engin trú. Því er nauðsynlegt að lifa bænalífi til að eiga gott samfélag við Guð.
„ Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Fil. 4:6)
Bænir skiptast í nokkra flokka:
- Beiðni, þá er verið að biðja Guð um eitthvað.
- Fyrirbæn, þá er verið að biðja fyrir einhverjum. Gott dæmi um slíka bæn er almenn kirkjubæn.
- Þakkarbæn, þá er verið að þakka Guði fyrir gjafir hans og bænheyrslu.
- Tilbeiðsla, þá leitumst við vera í návist Guðs án orða.

Bæn er samtal við Guð. Í bæninni tölum við Guð og hlustum á hann, þar eigum við samfélag við hann. Guð getur svarað bæninni. Það getur hann gert með því aðláta bænina rætast, með því að orð hans í Biblíunni sýni okkur svar hans og með því að við finnum fyrir svari hans sem tilfinningu, með því að líða betur, huggast, fá styrk eða á annan hátt.
Bæn er þó ekki pöntunarlisti. Guð hlustar á bænir okkar, en hann veit hvað er okkur fyrir bestu, því getur hann látið bæn okkar rætast á annan hátt en við eigum von á. En það sem kristinn maður biður fyrst og síðast um er að vilji Guðs verði. Vilji hans er hið góða, fagra og fullkomna sem birtist í Litlu Biblíunni.
Faðir vor:
Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. .
Við eigum ekki að biðja til að sýnast, heldur alltaf af einlægni. Hann segir að við eigum að biðja, líka þegar við erum ekki nógu góð eða tilbúin. Þá þurfum við helst að biðja. Hann kenndi okkur að biðja með bæninni Faðir vor
Guð vill að við biðjum, en samt finnum við ekki alltaf fyrir návist hans í bæninni. Hann skynjar þó allt og stundum þurfum við að bíða eftir að hann svari bæninni. Bæn getur verið í hljóði, upphátt, með spenntar greipar, lokuð augu, eða engin sýnileg tákn bænar. Jafnvel andvarp getur verið bæn. En bæn er ekki aðeins hugsun eða orð, heldur líf með Guði og í Kristi.
Það er nauðsynlegt að skapa festu í bænarlífi. Því er eðlilegt að hefja hvern dag og ljúka með bænarstund, en hver og einn finnur þann tíma sem honum hentar.
Hverjir mega biðja?
Í Matteusarguðspjalli 7:7 segir Kristur að við eigum að biðja. Þar segir ekki að þeir sem eru góðir eiga að biðja, en aðrir ekki. Þar segir ekki að þeir sem eru í réttri stemningu eiga að biðja, en aðrir ekki. Þar segir ekki að það eigi að biðja bráðum, en ekki núna. Þar segir hann einfaldlega við okkur öll: „Biðjið og yður mun gefast.“

Hvenær eigum við að biðja?
Lestu Lúkasarguðspjall 5:31-2. Þegar við erum ekki góð eða ekki tilbúin þá þurfum við meiri hjálp, en þegar allt er gott og við erum tilbúin. Er líklegra að við verðum tilbúin seinna ef við biðjum ekki Guð um hjálp er við þurfum mest á hjálp hans að halda? Þegar við erum reið eða ill er nauðsynlegra en áður að biðja. Erum við nokkuð meira tilbúin eftir 5 mínútur eða hálftíma? Gamall og góður siður er að ramma daginn með morgun- og kvöldbæn, þegar við vöknum og þegar við förum að sofa. Margir fara með borðbæn og eins er vani sjómanna að fara með sjóferðabæn áður en þeir sigla og svona mætti lengi telja áfram. Hægt er að fara með hljóða bæn hvenær sem er, til dæmis Jesú bænina. Þannig að það er alltaf rétti tíminn til að biðja.
Friðarbæn heilags Frans frá Assisi.
Drottinn,
ger þú mig að farvegi friðar þíns,
svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er,
fyrirgefningu þangað sem móðgun er,
einingu þangað sem sundrung er,
trú þangað sem efi er,
von þangað sem örvænting er,
gleði þangað sem harmur er,
ljós þangað sem skuggi er.
Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur eftir að
hugga en láta huggast,
skilja en njóta skilnings,
elska en vera elskaður,
því að okkur gefst ef við gefum,
við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum,
okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum
og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs. Amen.
Í hvers nafni biðjum við?
Lestu Jóhannesarguðspjall 14:13-14. Þegar okkur líður illa og erum ekki nógu góð til að nálgast Guð, þá er Jesús Kristur nógu góður. Hann tekur á sig okkar mistök og syndir. Hann gefur okkur einnig nýtt líf í upprisunni og því getum við beðið í hans nafni og getum treyst að bæn okkar verður heyrð. Lestu Matteusarguðspjall 18:19-20.
Jesú bænin:
Drottinn, Jesú Kristur, Sonur Guðs, miskunna þú oss.
eða
Drottinn, Jesú Kristur, Sonur Guðs, ver oss syndugum líknsamur.
* Amen= svo sannarlega.
* Skuldunautar= þeir sem skulda okkur.
- a. Hvað er bæn?
b. Um hvað biður barn Guðs?
c. Getur Guð svarað bæn, og ef svo er, hvernig?
- Lestu Jóh. 14:12, Matt. 7:7-11
- Lærðu Faðir vor og signinguna.