Biblían

Heilög ritning kristinna manna kallast Biblía. Biblían er safn margra bóka (66) og skiptist í tvo hluta, Gamla testamentið og Nýja testamentið. Biblían er heilög og orð Guðs, ekki vegna þess að hún er óskeikul eða féll niður af himni, heldur því að hún fjallar um Orð Guðs, Jesú Krist, sem er Sonur Guðs, og birtir boðskap Guðs til okkar í lífi sínu, dauða og upprisu. Sá boðskapur er falinn í litlu Biblíunni, en hún segir boðskap Biblíunnar í fáum orðum. Höfundar rita Biblíunnar eru margir og eru bækurnar skrifaðar á löngu tímabili. En þær hafa staðist dóm aldanna og eru innblásnar af Heilögum anda og hjálpa okkur því að nálgast Guð og boðskap hans til okkar. Því er Biblían kölluð heilög ritning.

Í Biblíunni fáum við fyrst og fremst svör við spurningunum: Hver er Guð? Og hver er tilgangurinn með lífi okkar? Biblían er ekki sagnfræðirit, þó að margt sé þar rétt sagnfræðilega. Hún er ekki heldur vísindarit, enda er aldrei farið fram á að hún sé lesin þannig. Biblían svarar miklu fremur spurningunni hvers vegna en hvernig. Það eru þau svör sem gefa og næra.

Gamla testamentið fjallar um þann sáttmála sem Guð gerði við mennina í lögmálinu og hvernig spáð er nýjum sáttmála Guðs við menn. Einnig fylgja stundum með í Biblíunni apókrifarrit Gamla testamentisins, en það eru helg rit sem náðu ekki alveg að komast í Gamla testamentið.

* Biblían= bækur, bókasafn.

* Testamenti= sáttmáli.

* Tórah= Mósebækur

* Apókrífarrit: Hulin rit.

Nýja testamentið fjallar um Jesú Krist, um líf hans, dauða og upprisu og hvaða áhrif hann hafði á lærisveinana. Jesús Kristur er hinn nýi sáttmáli sem uppfyllir þann gamla og kemur á sátt milli Guðs og manna.

Gamla testamentið skiptist í:

  • Mósebækur, þar er m.a. sköpunarsagan, saga Abrahams og Móse, boðorðin og lögmálið.
  • Davíðssálmar er bæna- og sálmabók Jesú og Gyðinga.
  • Spámennirnir, þar er boðuð iðrun og dómur yfir verkum manna. Þar er fyrirheitið um hjálp Guðs, hinn smurða, Krist, sem spáir fæðingu, dauða og upprisu Sonar Guðs.

Nýja testamentið skiptist í:

  • Guðspjöllin, segja frá lífi Jesú, boðun, dauða hans og upprisu.
  • Postulasagan, hún segir frá stofnun kirkjunnar og fyrstu árum hennar.
  • Bréfin, þau segja frá hvernig menn eiga að lifa samkvæmt boðskapnum og hvernig hann barst um allan heim.
  • Opinberunarbókin, hún segir frá því að hið góða mun sigra, að við eigum að halda í vonina og bendir til hinna síðustu tíma.

1) Um Guð – Skrifaðu niður versin 1Jóh. 4:16, Jóh. 1:18 og Sálm. 139:5.

2) Um tilgang lífs okkar– Skrifaðu niður versin Matt. 16:26 og Jóh. 3:16.

3) Gamla testamentið – Flettu upp á Sálm. 23, Jes. 9 og 53 og lestu.

4) a. Lærðu Blessunarorðin og Litlu Biblíuna

b. Hvers vegna heitir hún Litla Biblían?

c. Hvaða merkingu hefur hún gagnvart þér?