Breytnin

Lögmálið.

Flettu upp á 2. Mósebók, 20. kafla.  Þar koma fram boðorð Guðs, hluti af lögmáli hans. Hinn gamli sáttmáli.  Guð gætir þjóðar sinnar og annast hana, en hún á að fylgja vilja hans, lögmálinu.  Hlutverk okkar er að fara að lögmálinu.  Ef við brjótum boðorð rjúfum við sáttmálann við Guð og erum sek.  Synd kemst þá á milli okkar og Guðs.

Lögmálið er sáttmáli sem birtir umferðareglur um lífið. Það er skipan skaparans og á þannig við um alla menn. Þetta er einnig skráð í hjörtu manna, samviskan er rödd þess. Þetta er fyrsta notkun lögmálsins. Ef við förum eftir þeim í öllu erum við góð og allt mun fara vel. Lærðu boðorðin tíu utanað.

Boðorðin tíu:

  1. Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt eigi aðra guði hafa.
  2. Þú skalt eigi leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
  3. Halda skaltu hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt eigi mann deyða.
  6. Þú skalt eigi drýgja hór.
  7. Þú skalt eigi stela.
  8. Þú skalt eigi bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt eigi girnast hús náunga þíns.
  10. Þú skalt eigi girnast konu náunga þíns, þjón, þernu, fénað né nokkuð það sem náungi þinn á.

Fyrstu þrjú boðorðin fjalla um samskipti okkar við Guð, en síðustu sjö fjalla um samskipti okkar hvert við annað. Kraftur okkar til góðra verka er frá Guði kominn og því fjalla fyrstu þrjú boðorðin um hann. Með því að virða hann og eiga samfélag við hann uppfyllum við fyrstu þrjú boðorðin. Þá getum við einnig snúið okkur að því að virða sköpun hans, en um hana fjalla næstu boðorð. Þau byrja á þeim sem standa okkur næst, fjölskyldunni og er gagnkvæmt virðingarboðorð foreldra og barna. Við eigum að vera góð við aðra menn og okkur sjálf, það er sáttmáli manna á milli, til að halda friðinn og gæta þess að enginn brjóti á öðrum og komi í veg fyrir árekstra. En boðorðin eru ekki aðeins bönn, heldur einnig boð um að gera gott. Hjálpa.

Boðorðin eru því ekki sett okkur til þvingunar, heldur okkur til hjálpar, svo að aðrir troði ekki á okkur og því troðum við ekki á þeim. Bororðin vernda líf manna, fjölskylduna, eignir og mannorð. Síðustu tvö boðorðin taka á afstöðu okkar, innsta kjarna, hjartanu. Lestu Matt. 15: 17:20. Það er í hjartanu sem illar hugsanir eiga sér upphaf og engin ill verk eru unnin án þess að hugurinn komi að málum. Því er ekki nóg að virðast góður, ef hjartað er ekki með, þá mun að lokum koma fram í orðunum og verkunum það sem í hjartanu er. Því skiptir það máli fyrir aðra hvað í hjarta þínu er. Lögmálið er þannig einnig samfélagssáttmáli allra manna.

Kristur dró saman lögmálið og spámennina í gullnu reglunni (Matt. 7:12). Lærðu hana. Hún dregur saman fyrstu notkun lögmálsins á góðan hátt, sérstaklega varðandi síðustu sjö boðorðin. Gullna reglan birtir vel þann veruleika að boðorðin eru ekki aðeins að gera ekki það sem er bannað, heldur gera það sem er gott og hjálpsamlegt.

Gullna reglan:
„Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ „Því að þetta er lögmálið og spámennirnir“

Lögmálið og fagnaðarerindið.

Samkvæmt Jesú Kristi er ekki nóg að fylgja lögmálinu í verki og orðum. Það þarf að gera í hugsunum og í raun í hjartanu. Ef hjartað er ekki hlýðið Guði þá getum við ekki fylgt vilja hans í öllu. Syndin veldur því. Við missum marks. Lögmálið dæmir hroka okkar og sjálfsréttlætingu. Það er önnur notkun lögmálsins. Við þurfum hjálp og eigum að angra, iðrast. Samviskan kallar okkur til þess að iðrast.

Þá koma góðu fréttirnar. Fagnaðarerindið! Lestu Jóh. 3:16 og Gal. 2:16-21. Kristur dó fyrir okkur og reis upp fyrir okkur. Því að Guð fyrirgefur okkur og ef við elskum hann og fylgjum honum, þá getur hann umbreytt hjarta okkar og gefið okkur kærleika sinn. Ef hjartað er í lagi, þá erum við hrein og gerum gott. Þá hlýðum við lögmálinu af því að við viljum gera gott, en ekki vegna þess að við þurfum. Það er það sem Jesú átti við er hann sagði við fólk sem hann læknaði; syndir þínar eru fyrirgefnar, far því og syndga ekki meir. Lestu Gal. 3:21-29.

Þegar Jesús var spurður að því hvaða boðorð væri mikilvægast, svaraði hann með tvöfalda kærleiksboðorðinu (Matt. 22:36-40). Ef við látum kærleika Guðs stjórna hjarta okkar þá fylgir allt hitt á eftir. Við eigum líka að elska meðbræður okkar og systur, þar á meðal okkur, án þess að vera sjálfselsk.

Tvöfalda kærleiksboðorðið:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Lestu óðinn til kærleikans í 1. Kor. 13. „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ Við erum réttlætt af trú, lifum í von, en kærleikurinn er trúin og vonin í verki. Án kærleikans er trúin og vonin dauð. Kærleikurinn er því siðfræði kristins manns og uppfylling lögmálsins. Kærleikurinn er hinn nýi sáttmáli. Kærleikurinn er gjöf Guðs til okkar og okkar gjöf til annarra, þar á meðal okkar sjálfs. Því að líf okkar er heilagt. Guð elskar þig, þó að þú gerir mistök. Hann elskar líka önnur börn sín, því eigum við þá að dæma þau? Við eigum það ekki og kærleikurinn dæmir ekki. Kristur segir í Fjallræðunni: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd.“ Lestu Matt. 7:1-5. Þar segir ekkert um að við eigum að dæma bara ef menn eru sekir. Við erum öll sek, því dæmum við ekki fólk. Við vitum hvaða verk eru góð, en við dæmum ekki fólk. Þannig er kærleikurinn og fyrirgefningin kennimerki barna Guðs.

En hvernig getum við eignast kærleika? Þá er gott að rifja upp sæluboðin og fylgja þeirri leið sem þar er sýnd. Fyrst er að viðurkenna að við erum ekki nógu góð og þurfum hjálp Guðs. Við eigum að eiga samfélag við Guð, biðja til hans og lesa orð hans., ræða við aðra trúaða. Hleypum Heilögum anda í hjartað og höldum okkur frá því sem er ekki kærleikans. Treystum Guði og gerum Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar. Þá mun kærleikinn ráða.

  1. ) Lærðu Boðorðin 10. 
  2. )    a. Hvaða þýðingu hafa fyrstu 3 boðorðin á líf okkar?

b. Fer fólk eftir þeim í dag?

3) Hvað merkir 4. boðorðið á líf þitt?

4)    a. Hvaða þýðingu hafa 9. og 10 boðorðið á líf okkar? 

b. Hvað gagnrýna þessi boðorð helst í nútímanum?