Ferming þín

Nú hefur þú verið fengið fræðslu um þá trú sem þú hefur skírst til.  Þú hefur sýnt í vetur að þú tekur trú þína alvarlega með því að taka þátt í safnaðarstarfinu.  Þú hefur mætt í guðsþjónustur, samið og beðið bænir, lesið í heilagri ritningu og farið á fermingarbarnamót.  Nú nálgast sá dagur sem þú játar trú þína frammi fyrir söfnuðinum í almennri guðsþjónustu.  Þá hefur þú uppfyllt þau 3 atriði er áður voru uppfyllt fyrir skírn þegar fullorðnir voru nær eingöngu skírðir.

            Nú hefur þú fengið þann undirbúning sem þú þarft til að taka ábyrgð á trúarlífi þínu.  Þú ert ekki að útskrifast úr kirkjunni, heldur er það þín ábyrgð til að taka þátt í safnaðarstarfinu sem barn Guðs sem hefur heitið að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.  Það er ekki lítið heit og því er mikilvægt að fara eftir því.  Mundu að treysta Guði og fylgja honum í hjarta þínu.  Þá mun allt fara vel.

Þú velur þér ritningarvers sem þú ferð með í fermingarathöfninni og það vers fylgir þér alla ævi.  Það getur verið þér huggunarorð eða lífsmottó. Oft ganga slík vers í erfðir í fjölskyldum, en mikilvægt er að þú veljir þér vers sem þú vilt lifa með.  Gott er að fletta í ritningunni og finna versið.  Mörg falleg vers eru í Davíðssálmum, guðspjöllunum og sérstaklega Jóhannesarguðspjalli.  Eins eru bréf Nýja testamentisins rík af fallegum versum, sem og spekirit gamla testamentisins.  Ef illa gengur að finna fallegt vers, getur þú leitað til sóknarprestsins sem á lista með vinsælum versum.

Fyrir fermingu þína verður æfing þar sem þú og forráðamenn þínir mæta.  Þar verður allt vandlega æft.  Gangi þér og þínum vel í öllum undirbúningi.

Mundu að þegar allt er sem erfiðast í lífi þínu er Guð þér næstur.  Leitaðu til hans og treystu.  Þú mátt alltaf leita til prests og getur rætt við hann um vandamál þín og hann er bundinn þagnarskyldu.  Prestar eru til að hjálpa, ekki láta feimni stoppa þig.

Guð gefi þér þá náð að ganga á hans vegum alla þína daga og nætur og megi hann vaka yfir þér og þínum.    Guð blessi þig.

Veldu þér ritningarvers fyrir fermingu þína.