Heilagur andi

Áður en Kristur steig upp til himna á Uppstigningardag, lofaði hann fylgjendum sínum að hann myndi ekki skilja þá eftir munaðarlausa. Hann myndi senda þeim hjálpara. Tíu dögum seinna „varð skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á.“ Það var eins og elding kvíslaðist á hvern og einn þeirra og fylltust þeir heilögum anda. Lestu 2. kafla Postulasögunnar. Heilagur andi er hjálparinn, sá sem birtist er Kristur var skírður og sveif yfir vötnunum í sköpunarsögunni.

Trúarjátningin :

Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu holdsins og eilíft líf.

Með Heilögum anda skildu nú lærisveinarnir hver Kristur væri og hví hann varð að deyja. Trú þeirra styrktist og varð ódrepanleg. Kirkjan varð til, hún var stofnuð þann dag, hvítasunnudag. Lærisveinarnir töluðu nú tungum og gerðu mörg kraftaverk sem þeir gátu ekki áður. Með hjálp Heilags anda voru þeim allar leiðir færar. Kirkjan blómstraði og óx.

Heilagur andi gerir okkur kleift að tala við Guð og skynja nærveru hans. Án hans er ekki hægt að iðrast og nefna nafn Guðs. Án hans er ekki hægt að trúa. Að stunda lestur Guðs orðs og eiga við hann samfélag, nærir andann og eflir kærleikann í hjarta okkar.

Kirkjan er heilög, því hún er helguð af heilögum anda og allsstaðar sem tveir eða fleiri eru komnir saman í nafni Krists, þar er hann. Kirkjan er söfnuðurinn, samfélag trúaðra. Síðar voru húsin, þar sem var tilbeðið, nefnd kirkjur. Einnig skiptust trúardeildir í kirkjur. Þjóðkirkjan, okkar kirkja, er evangelísk lútersk þjóðkirkja. Heilög almenn kirkja er ekki ein kirkjudeild, heldur hin ósýnilega kirkja þar sem börn Guðs eiga samfélag. Heilagir eru þeir sem Guð helgar sem börn sín, það eru ekki verk þeirra eða trúarhiti sem gerir þá heilaga. Heilagur andi er huggarinn, hjálparinn, sem er hjá okkur þar til Kristur kemur á ný. Þá mun réttlæti Guðs ríkja og hið fallna, holdið, rísa upp frá ófullkomnleika sínum og verða eins og Guð ætlaði okkur. Hið góða, hið fagra, hið fullkomna. Eilíft, gott, líf í friði og kærleika Guðs.