Heilög þrenning

Hver er sá Guð sem við þekkjum í gegnum bænina og heilaga ritningu? Hvernig er hann? Er hann gamall karl á skýjum sem dæmir okkur ef við gerum smá mistök? Er hann forlagaguð, sem stjórnar öllu eins og við værum strengjabrúður? Er hann guð hefndar og endurgjalds, sem refsar okkur ef við gerum eitthvað slæmt, en launar góða hegðun? Eða er hann viðlagaguð, sem skiptir sér lítið af okkur, en gott að leita til hans ef eitthvað er mikið að?

Við trúum að Kristur sé Sonur Guðs. Hann sýnir okkur hvernig Guð er. Hann er eins og gluggi að himnaríki. Með því að kynnast Kristi getum við séð inn í himnaríki og hvernig Guð er og vilji hans. Við getum kynnst honum í gegnum bænina og lestur Biblíunnar.

Þríeinn Guð.

Kristur birtir okkur að Guð er einn. En hann er samt þrjár persónur. Við getum kynnst honum sem Guð Föður, Syni og Heilögum anda. Samt er hann einn. En hann birtist okkur á þrefaldan mismunandi hátt.

Þess vegna hefur Guð oft verið táknaður með þríhyrningi eða eldi með þrjá loga. Eldur getur kveikt í húsi með einum loga (a). Þannig getur logi (a) kveikt í húsinu, en logarnir hinir (b og c) snerta það ekki. Á sama hátt getum við verið í snertingu við eina persónu Guðs, án þess að vera í snertingu við hinar tvær. Samt er Guð allur að verki, eins og eldurinn er að verki í húsinu. Eins er með þríhyrning, sem er einn en hefur þrjár hliðar.

Trúarjátningar okkar.

Margt er erfitt að skilja varðandi Guð. Hann er stærri og flóknari en svo að við skiljum hann til fulls. Annars væri hann ekki Guð. Guð er okkur leyndardómur. En við getum skynjað leyndardóminn í hjarta okkar, þó að stundum sé erfitt að rökstyðja.

Frumkirkjurnar komu saman fyrr á öldum til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvað væru grundvallaratriði trúarinnar. Niðurstöðurnar voru birtar sem trúarjátningarnar. Þrjár eru almennar, alkirkjulegar, Postullega trúarjátningin, Níkeujátningin og Aþaníusarjátningin. Að auki eru játningarrit hinnar evangelísk-lútersku kirkju, en þau eru Ágsborgarjátningin, Fræði Lúters og nokkur fleiri rit.

Trúarjátningarnar birta okkur hinn þríeina Guð:

  • Guð Faðir sem skapar og er nálægur (en stjórnar okkur ekki eins og forlagaguð).
  • Guð Sonur sem frelsar og fyrirgefur og birtist okkur í manninum Jesú Kristi (en er ekki guð hefndar og endurgjalds).
  • Heilagur andi sem er nálægur, býr í okkur, lífgar og nærir (en ekki viðlagaguð).

1) Þríeinn Guð – Hvernig getur Guð verið einn, en einnig Faðir, Sonur og Heilagur andi?

2) Lærðu trúarjátninguna.