Inngangur

Nú er hafinn undirbúningur fermingar þinnar. Þetta rit er fermingarkver þitt. Hlutverk þess er að fræða þig um þá trú sem þú hefur verið skírð eða skírður til. Guð útvaldi þig í skírn þinni og nú ætlar þú að játa trú þína í fermingu þinni.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um tímasetningu eða staðsetningu fermingarbarnamóts. Fermingarfræðslutímar verða í safnaðarheimili Ólafsvíkurkirkju að jafnaði aðra hverja viku. Þeir verða í tvær kennslustundir í senn að jafnaði og að minnsta kosti í þrjátíu kennslustundir.

Samkvæmt námsskrá er inntak fræðslunnar fyrst og fremst breytnin, kenningin og trúarlífið. Lögð verður áhersla á boðorðin tíu og tvöfalda kærleiksboðorðið, auk sæluboðanna varðandi breytni okkar. Postulleg trúarjátning birtir kenninguna, inntak trúarinnar. Varðandi trúarlífið er lögð áhersla á bænina og náðarmeðulin, skírn, kvöldmáltíð og Guðs orð.

Markmið fermingarfræðslunnar er að vekja, kenna og virkja. Hér á undan var farið í hvað kennt verður. En lykilatriðið er að trúin sé lifandi. Sá sem vill gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns vill eiga við hann lifandi samfélag. Því þarf að vekja og virkja trúna. Það er ætlast til þess að þeir sem ætla að fermast sæki guðsþjónustur safnaðanna í vetur. Þar á meðal er æskulýðsmessa eftir áramót þar sem öll fermingarbörn mæta, eru sýnileg, sjá um messukynningu og almenna kirkjubæn. Hvert fermingarbarn sér einnig um að lesa ritningarlestur tvisvar í guðsþjónustu. Þannig eru fermingarbörnin virk í starfi safnaðanna. En það er einnig ætlast til að þau lifi trúarlífi í hinu innra. Í lok hvers fermingartíma er bænastund þar sem allir eru virkir. Lesið verður úr ritningunni og markmiðið er að allir kunni að flétta í henni og hafi helst lesið guðspjall. Markmiðið er að þau sem sækja fermingarfræðsluna upplifi samfélag trúarinnar og gleðina, kynnist betur góðum og miskunnsömum Guði sem er vinur þeirra í öllum stundum lífsins.

Nauðsynleg hjálpargögn í tímum eru Nýja testamentið með sálmum, sálmabók, fermingarkverið og Kirkjulykillinn. Þeir foreldrar sem ætla að gefa börnum sínum sálmabók eru hvattir til að gera það strax í haust svo að þau geti notað bókina í vetur og kynnst henni fyrir fermingu. Að auki á að mæta í tíma með skriffæri og blöð.

Stefnt verður á að hafa próf í námsefninu í seinni hluta janúar, en þar þarf að ná einkunninni 5. Ef því lágmarki er ekki náð er hægt að fara í munnlegt próf. Auk þess að geta sýnt fram á þekkingu á námsefninu þarf að læra utan að það sem er í kaflanum „Kanntu þetta“ og skila í tíma, auk þess sem það er til prófs. Spurt er út í kverið og fyrst og fremst spurningarnar í köflunum auk þess sem læra á utan að. Þeir sem hafa skilað öllum verkefnum réttum og utanbókarlærdómi fyrir jól þurfa ekki að fara í próf. Mánaðarlega er sent yfirlit í tölupósti um hvar hver einstaklingur er staddur varðandi verkefni og lærdóm.

Það verður gaman að eiga samfélag við fermingarbörn vetrarins og ég vona að þú hafir góðar væntingar og að við eigum saman góðar stundir. Megi þessi vetur vera okkur vekjandi, fræðandi og virkjandi. Guð blessi þig.

Óskar Ingi Ingason.