Jesús Kristur – Boðun meistarans

Samkvæmt guðspjöllunum þá kom Jesús fram sem prédikari og kraftaverkamaður síðasta ár eða síðustu þrjú ár lífs síns. Lítið er vitað um æskuár hans og fram að þrítugu. Fóstri hans var smiðurinn Jósefs og því lærði hann iðnina af honum. María, móðir Jesú, átti einnig önnur börn.

* Jesús merkir Drottinn frelsar.

* Kristur merkir hinn smurði (=konungur) (hebresku=Messías)

* Maðurinn skiptist í líkama, sál og anda. Andinn var kjarninn þar sem samskipti við Guð eiga sér stað.

Jesús var skírður af Jóhannesi skírara og ferðaðist hann síðan um Galíleu og gegnum Samaríu til Júdeu. Hann boðaði að ríki Guðs væri nærri. Hann varð vinsæll og fólk fylgdi honum. Hann valdi sér 12 postula, lærisveinar hans voru mun fleiri. Fólkið tók boðskapnum vel og átti von á að nú myndi það losna við Rómverjanna. Jesús boðaði ekki aðeins með orðum, heldur sýndi í verki hvað hann boðaði. Hann læknaði og vann kraftaverk. Hann fyrirgaf mönnum syndir sínar og umbreytti lífi manna. Náttúran virtist hlýða honum. Hann túlkaði lögmálið á nýjan hátt. Að fyrirgefa syndir var á þeim tíma aðeins ætlað Guði og þótti fræðimönnum Gyðinga það hneykslanlegt af Jesú. Hann kallaði Guð pabba (abba) og í stað þess að vitna í fræðimenn sagði hann „en ég segi yður…“. Hann ógnaði stöðu fræðimanna og ríkjandi ástandi. Því óttuðust hann margir og sumir töldu að Rómverjar mundu refsa þeim harðlega vegna þess að margir gyðingar litu á Jesú sem Krist.

Sæluboðin:

Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.

Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.

Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.

Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.

Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.

Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.

Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.

Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna.

Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður.

Kjarni þess sem hann boðar er að Guðs ríki er nærri. Við eigum að iðrast að hafa ekki gert vilja Guðs og Guð fyrirgefur. Guð elskar okkur. Lestu Lúk. 15: 1-7. En þetta voru ekki aðeins orð. Jesús snéri sér að hinum týndu og dæmdu. Hann leitaði „til þeirra sem þurftu læknis við.“

Í Fjallræðunni (Matt. 5-7) kemur boðskapur Jesú skýrt fram. Allir þurfa náðar Guðs og fyrirgefningar. Sæluboðin sýna hvernig við eigum að vera. Í hjartanu iðrumst við og þar fáum við fyrirgefningu. Vegna verka Heilags anda í hjartanu eignumst við kærleika Guðs sem gefur okkur vilja og mátt til að gera gott og hafna illu. Með því að fylgja kærleika Guðs uppfyllum við lögmálið og vilja Guðs. Meira um sæluboðin í kaflanum um boðun meistarans á www.kver.kirkjanokkar.is

  1. a. Hvað er að vera Fátækur í anda?

b. Hví er svo mikilvægt að viðurkenna fátækt sína?

  1. a. Lærðu Sæluboðin.

b. Hvað kenna þau okkur og hvaða áhrif eiga þau að hafa á líf okkar?