Biblía Gyðinga segir að Guð muni senda til þjóðar sinnar mannsoninn til að frelsa hana úr ánauðinni og rétta hlut hennar. Í upphafi tímatals okkar þá var Palestína hersetin af Rómverjum. Gyðingar reyndu að brjótast til sjálfstæðis, en allar tilraunir til þess voru brotnar niður með ofsa. Gyðingar væntu því að mannsonurinn yrði pólitískur frelsari sem kæmi Rómverjum frá völdum og kæmi Gyðingum aftur á kortið.
Því var spáð að Kristur myndi fæðast í Nasaret af ætt Benjamíníta. Ýmislegt annað var spáð um Krist. Lestu Jesaja 9:1-6.
Fyrstu ár kristninnar höfðu menn meiri áhuga á dauða Krists og upprisu, en fæðingu hans. Þegar árin liðu fóru menn að horfa meira til fæðingarinnar og segja sögu frá henni. Hlutverk sögunnar er að benda lesandanum á að Jesús er sá sem spáð var um í Gamla testamentinu. Hann er mannsonurinn. Hann er sá sem Guð sendi til að frelsa þjóð sína. Þess vegna eru spádómarnir um Krist settir í forgrunn fæðingarsögunnar.

Lestu Lúk. 1:1-2:40 og Jóh. 1. Þar kemur fram að heimurinn hafnaði Syni Guðs. Hann var fæddur án þess að heimurinn tæki eftir því, ekki í höll heldur hreysi, ekki í dýrð heldur látleysi. En þeir sem vissu hver hann var sáu að allt var breytt.
Tímatal okkar er miðað við fæðingu Jesú, en það var reiknað af munki á miðöldum. Vitleysa var í útreikningum hans, svo að líklega fæddist Jesú 4-7 árum fyrir Krist. Þess ber að geta að árið 0 var ekki til svo að árið eftir 1 fyrir Krist er 1 eftir Krist.
Ekki er vitað hvaða dag Jesús var fæddur. Það þótti ekki mikilvægt. En þegar kristnin kom til norður Evrópu fóru menn að minnast fæðingu hans á þeim tíma er heiðnir menn þar héldu upp á hátíð sína í myrkrinu, jólin. Þá var hátíð ljóssins, er ljósið kom í heiminn, og hrakti myrkrið í burtu. Í dag er engin hátíð í heiminum jafn vinsæl og jólin. Þannig hefur kristnin ávallt getað notað það sem fyrir er og blásið það kristinni merkingu, rétt eins og jólin eru nú fyrst og fremst kristin hátíð.