Jesús Kristur – Kristur er upprisinn

Lestu 28. kafla Matteusarguðspjalls. Dagurinn eftir föstudaginn langa er oft kallaður laugardagurinn kyrri. Þá segir hefðin að Jesús hafi verið í helju og boðað Guðs ríki. Að morgni páskadags, breyttist allt. Allt var tapað og virtist að líf og dauði Jesú Krists hafi verið til einskis. En árla morguns þegar „lýsti af degi“ komu konur að gröf Jesú. Steininum hafði verið velt frá grafarmunnanum og gröfin var tóm. Engill birtist þeim og sagði þeim að Jesús væri upprisinn og að þær þyrftu ekki að óttast. Allt væri nýtt. Kristur væri upprisinn. Þær flýðu frá gröfinni og sögðu lærisveinunum frá því sem gerst hafði. Fyrstu vottarnir af upprisunni voru konur, en á þessum tíma var ekki tekið mark á orðum kvenna. Að konur væru fyrstu vottarnir og að það væri sagt frá því segir allt um stöðu kvenna hjá Kristi og í frumkristni. Allir voru eitt í Kristi, frammi fyrir Guði og mönnum. Seinna birtist Kristur hinum lærisveinunum og einnig Tómasi efasemdarmanni sem fékk leyfi til að snerta sár Krists. Hann birtist í lokuðum herbergjum og á fleiri en einum stað í einu. Allt var nýtt. Dauðinn hafði ósigur, lífið sigraði. Jesús Kristur er Sonur Guðs. Guðs ríki er nærri.

Upprisa Krists frá dauðum sýnir að Guð er nærri og er ekki sama. Hann hjálpar og ekkert getur stoppað vilja hans. Ekki einu sinni synd og dauði. Allt er háð vilja Guðs. Upprisan táknar að hið illa sigrar ekki heldur Guð. Því að vegna þess að Jesús Kristur dó fyrir syndir okkar þá eigum við einnig líf vegna upprisu hans. Hann lifir og því munum við lifa. Það er ekkert lengur að óttast. Enda breyttist allt. Lærisveinar Krists söfnuðust saman með von í hjarta. Það sem áður var þeim tap varð að fullnaðarsigri. Þeir fóru að skilja betur og sjá hver Jesú var. Hann var að fullu Sonur Guðs. Eftir fjörtíu daga, á Uppstigningardag, hvarf hann þeim sjónum, steig upp til himna, fór til Guðs. Næstu 10 daga biðu þeir í óvissu. Gleðidagar upprisunnar voru liðnir.

Páskarnir eru mesta hátíð kristinna manna. Páskahátíðin hefst að lokinni dymbilviku með páskavöku á aðfanganótt páska, páskadagsnótt. Þá vöktu menn eftir upprisunni. Minntust skírnar sinnar og glöddust. Svo hófst gleði páskadagsins. Án upprisunnar væri ekki til kristni. Án hennar væri trúin dauð. Með upprisunni eignuðust menn trú sem þeir gengu frekar í dauðann fyrir en að afneita henni. Með upprisunni skildu menn að Guð elskar okkur og hefur sent Son sinn, til þess að við frelsumst. Til þess að við getum átt gott líf og sátt í hjarta, fullkominn fögnuð.

Það er merkilegt að óvinir kristinna manna mótmæltu ekki að gröf Jesú var tóm. Þeir sögðu á fyrstu öldum kristni að líkinu hefði verið stolið af lærisveinunum. En getur verið að þeir sömu lærisveinar sem flúðu og afneituðu Jesú er hann var krossfestur skyldu tveimur dögum seinna stela líki hans og segja hann upprisinn? Og síðan vera tilbúnir að deyja fyrir þá trú hrottalegum dauðadaga? Eitt er víst að þeir trúðu á Krist upprisinn. Lestu Fyrra Korintubréf 15:1-20. Þeir trúðu. Hverju trúir þú?

Endurkoma Krists.

Kristur sagði lærisveinum sínum upprisinn að hann kæmi aftur. Hann sagði að Guðsríkið væri nærri. Hann fór til Guðs, steig upp til himna og tók sér hlutverk sitt þar. Hann er því óháður tíma og rúmi. Rétt eins og líkami hans virtist vera það upprisinn, dýrðarlíkami. Hann sagði að er hann kæmi aftur að þá yrði Guðsríki á jörðu. Endurkomu Krists hefur verið beðið í nær tvö þúsund ár. Enn er beðið. Þrátt fyrir að lengi hefur verið beðið, á hver kynslóð að lifa sem hin fyrsta og vænta þess að Kristur gæti komið í dag. Lestu Lúk. 12:35-48.

Endurkoma Krists er Dagur Drottins. Þá verða réttlátir og ranglátir dæmdir. Þá mun réttlæti Guðs ráða. Þá mun miskunn sú sem Kristur boðar vera veitt þeim sem eru fátækir í anda. Þá mun koma uppskerutíminn. Ef við treystum Guði og gerum Krist að leiðtoga lífs okkar þá er ekkert að óttast, hann mun annast okkur, eins og hann komst í gegnum dauða sinn og reis upp frá dauðum. Endurkoma Krists er því ekki til að óttast, heldur bendir til þess að í hjarta okkar verður fullkominn fögnuður og vilji Guðs einn ræður. Endurkoma Krists felur í sér upprisu okkar og sköpunarinnar. Ekki aðeins munu menn rísa heldur líka hið fallna sem Guð fyrirgefur. Fyrr var hið fallna, forgengilega orðað með hold. Allt mun rísa upp til nýs lífs sem Guð hefur fyrirboðið því. Í ritningunni er talað um Dag Drottins (t.d. Jóel 3). Bæði hina smáu og hinn stóra. Hinn stóri er endurkoma Krists og hinir smáu eru örlagadagar í lífi okkar. Mikilvægt er að muna að verk okkar og orð hafa ábyrgð og okkar er að bera góðan ávöxt í lífi okkar. Við eigum að treysta á náð Guðs, en ekki láta hana letja okkur til góðra verka. Hjartalag Guðs barna sést í verkum þeirra. Við eigum að iðrast þess sem við gerum rangt, fela Guði líf okkar og eltast við hið góða. Hann mun vel fyrir sjá og umvefja okkur kærleika sínum. Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Þegar við sjáum kross sem Kristur er ekki á, þá minnir það okkur á að hann er upprisinn. Gröfin er tóm. Þrátt fyrir alla erfiðleika sem við þurfum að glíma við, þá getur við leitað til hans, og eins og hann reis upp frá dauðum mun hann annast okkur. Hið góða mun sigra.

1) a. Hví eru páskar mesta hátíð kristinna manna?

b. Hverju breytir það sem gerðist á páskum fyrir okkur í dag?

c. Á hvaða vikudegi byrja páskar?

d. Hvað heitir fyrsti dagur páska?