Jesús Kristur – Lamb Guðs – Krossfestur, dáinn og grafinn

Lestu Matteusarguðspjall 27. kafla. Að morgni næsta dags, föstudagsins langa, framseldu æðstu prestar og öldungar Gyðinga Jesú í hendur Rómverja, því þeir máttu ekki taka hann af lífi. Pontíus Pílatus var þá landstjóri Rómverja. Hann bauð fólkinu að láta Jesú lausan, en fólkið krafðist að hann yrði krossfestur. Að lokum var hann dæmdur til dauða. Fyrst var hann húðstrýktur. Bar hann sjálfur kross sinn á aftökustaðinn, á Golgata. Þar var hann krossfestur með tveimur ræningjum hvorn til sinnar hliðar. Krossfesting er hryllilegur dauðadagi. Þjáningin er mikil og að lokum kafna menn. Á krossinn var skrifað: Jesús Kristur, konungur gyðinga (I.N.R.I). Þó áletrunin væri hugsuð sem háð að þá sagði hún meira en þeir ætluðu.

Gotneskur róðukross, kross með þjáðum Kristi á, minnir okkur á að Kristur hefur upplifað einsemd, þjáningu og dauða. Hann er með okkur í þjáningunni. Þar sem Kristur er að því virðist ósnertur af þjáningunni á krossinum, minnir það okkur á að Kristur er sigurvegarinn og getur hjálpað okkur. Það er rómanskur róðukross.


Jesús dó á krossinum um þrjú leytið. Hann kallaði fyrir dauða sinn: „Elóí, Elóí, lama sabaktaní“. Hann upplifði sig einan og hann vissi ekki hvað beið sín. En hann treysti Guði og fól sig honum. Hann kallaði og gaf upp andann. Allir höfðu yfirgefið hann. Lærisveinarnir flúðu og allt var þeim tapað. Sá sem átti að bjarga þeim var dáinn.

Dauði Jesú á krossi var hneyksli og fyllti alla vonleysi. Sonur Guðs gat ekki dáið. Allt virtist hafa verið til einskis. Síðan var lík hans tekið af krossinum, það smurt, sett í helli í grafreit og honum lokað. Hermenn gættu grafarinnar.

Með krossdauða sínum dó saklaus maður fyrir syndir okkar. Mannfjöldinn dæmdi hann til dauða. Kristur deyr fyrir syndir okkar, sem og syndir þeirra sem brjóta á okkur. Ef við dæmum aðra tekur Kristur á sig þann dóm, alveg eins og hann tekur á sig þína dóma og hreinsar þig frá synd. Þannig minnir dauði Krists á krossi okkur á þann veruleika að við erum syndug og þurfum á hjálp að halda. Jesús Kristur er lamb Guðs sem var fórnað í eitt skipti fyrir alla, líka okkur.

Við dauða hans varð myrkur og fortjald musterisins rifnaði í tvennt. Lambinu hafði verið fórnað.

Passíusálmarnir.

Enginn hefur betur lýst kvölum og dauða Jesú Krists á Íslandi en séra Hallgrímur Pétursson. Hann var sóknarprestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og samdi hann Passíusálmanna. Þeir voru í margar aldir sungnir á flestum heimilum landsins á föstunni og eru enn víða sungnir og lesnir. Þeir eru fimmtíu talsins og lýsa píslum og dauða Krist og hvað við getum lært af þeim. Passíusálmar Hallgríms hafa nokkrum sinnum verið lesnir í heild sinni í Ólafsvíkurkirkju á föstudaginn langa.

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með,

hugur og tunga hjálpi til.

Herrans pínu ég minnast vil.

2.

Sankti Páll skipar skyldu þá,

skulum vér allir jörðu á

kunngjöra þá kvöl og dapran deyð,

sem drottinn fyrir oss auma leið.

3.

Ljúfan Jesúm til lausnar mér

langaði víst að deyja hér.

Mig skyldi og lysta að minnast þess

mínum drottni til þakklætis.

4.

Innra mig loksins angrið sker,

æ, hvað er lítil rækt í mér.

Jesús er kvalinn í minn stað.

Of sjaldan hef ég minnst á það.

(Sálmur 1:1-4.)

Bænin má aldrei bresta þig.

Búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að drottins náð.

23.

Andvana lík til einskis neytt

er að sjón, heyrn og máli sneytt.

Svo er án bænar sálin snauð,

sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

24.

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér;

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Sálmur 4:22-24.)

  1. Hvað gerðist fyrst í dymbilviku?
  2. Hvað gerðist á skírdag?
  3. En á föstudaginn langa?
  4. Hvað þýðir að Jesús er lamb Guðs?
  5. Lærðu tvöfalda kærleiksboðið og gullnu regluna.