Eftir að hafa þvegið fætur læriveina sinna á skírdag var boðið til páskakvöldmáltíðar. Þar var vanalega fylgt í minnstu smáatriðum hefð sem hafði myndast til að minnast frelsun Hebrea frá þrældómi í Egyptalandi.
En Jesú snéri táknmáli máltíðarinnar yfir á sig og því sem var í þann mund að gerast. Jesús stofnaði í þessari máltíð kvöldmáltíðarsakramentið.

Júdas, postuli Krists, fór þá til að svíkja hann. Eftir máltíðina fór Jesús út í grasgarðinn Getsemane og þurfti að biðja. Hann bað lærisveina að koma og vaka með sér. En augljóst var að Jesú upplifði sig einan og vissi ekki hvað átti að gerast. Hann vissi að hann yrði að deyja, en hvers vegna skildi hann ekki. Hann óttaðist dauða sinn og bað Guð hvort ekki væri til önnur leið. Þarna birtist einsemd Jesú og varð greinilegt að hann var að fullu maður. Lærisveinarnir gátu ekki vakað með honum og það jók örvæntingu Jesú. En hann ákvað að fara að vilja Föður síns og treysta honum. Hann vakti því lærisveina sína, tilbúinn að mæta örlögum sínum.

Mikill flokkur manna frá æðstu prestum Gyðinga og öldungunum kom vopnaður í garðinn og Júdas með þeim. Hann sýndi þeim með kossi hver Jesús var og sveik hann þannig í hendur valdhafa Gyðinga. Lærisveinar Jesú vildu verjast en Jesús bannaði þeim það.
Æðstu prestarnir réttuðu yfir Jesú og á meðan tvístraðist hópur lærisveina Krists, hræddir og örvinglaðir. Gat verið að allt væri tapað? Gat verið að Jesús væri ekki Kristur?