
Páskamáltíð Krists.
Jesús stofnaði altarisgönguna með innsetningarorðunum á skírdag. Lestu Matt. 26:17-30. Páskamáltíðin var forn hebreskur siður. Þar var minnst björgunar Hebrea frá þrældómi í Egyptalandi. (2. Mós. 1-15, sérstaklega 12.) Jesús snéri táknmáli þessarar máltíðar yfir í minningarmáltíð um sig og frelsun manna frá þrældómi syndar og dauða. Hann sagði brauðið vera líkama sinn og vínið blóð sitt.
Þegar við göngum til altaris minnir það okkur á dauða og upprisu Krists. Við deyjum með honum og rísum til nýs lífs fyrir fórn hans. Líkaminn táknar að við erum eitt með Kristi. Við tilheyrum kirkjunni, líkama hans, sem hann stýrir og við fylgjum. Við erum ein fjölskylda í kirkjunni. Öll jafn mikilvæg, eins og hönd og fótur eru jafn mikilvæg líkamanum. Blóðið minnir okkur á að í okkur er eitt blóð, einn andi. Margir hafa þurft að blæða vegna trúar sinnar. Kristi blæddi vegna okkar og dó. Við gætum þurft að upplifa erfiðleika vegna trúar okkar. En með blóði Krists, dauða hans, hreinsaði hann okkur frá syndum okkar og dauða. Með blóði hans öðlumst við fyrirgefningu. En við erum ekki aðeins þiggjendur fyrirgefningarinnar og blóðsins. Við erum eitt í Kristi, jöfn börnum Guðs og þar ríkir miskunn og náð. Því fyrirgefum við öðrum eins og Guð fyrirgefur okkur.
Innsetningarorðin:
“Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði: ,,Takið og etið, þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.’’
Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: ,,Drekkið allir hér af. Þetta er kaleikur hins nýja sáttmála í mínu blóði, sem yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu.”
Jesús sagði brauðið vera líkama sinn og vínið blóð sitt. Þegar við neytum hinna helgu efna, að þá erum við ekki að borða líkama og blóð, en yfir, undir og allt um kring er líkami hans og blóð. Kristur er nálægur við kvöldmáltíðarsakramentið.
Að mæta Jesú Kristi og minnast hans.
Í kvöldmáltíðinni mætum við Jesú og minnumst hans. Í Innsetningarorðunum biður hann okkur að minnast sín með þessum hætti. Það gerum við, ekki vegna þess að við erum svo góð og trúuð að við getum gengið til altaris. Ekki heldur af því að við erum svo slæm að við þurfum fyrirgefningu meira en aðrir. Við þörfnumst öll fyrirgefningar og við hlýðum boði Krists um að minnast hans á þennan hátt og mætum honum þar.
Eftir upprisu Jesú Krists frá dauðum birtist hann tveimur lærisveinum á leið til Emmaus. Þeir þekktu hann ekki fyrr en þeir nutu saman máltíðar og hann braut brauðið. Á sama hátt getum við mætt honum í altarisgöngunni og þekkt hann.
Kvöldmáltíðarsakramenti.
Kvöldmáltíðin, einnig kölluð altarisganga, er sakramenti. Sakramenti þýðir leyndardómur og er heilög athöfn, stofnuð af Jesú. Hún hefur sýnileg jarðnesk efni og þar er til staðar náð Guðs á sérstakan hátt. Kvöldmáltíðin uppfyllir öll þessi atriði.

Altarisgangan er sakramenti (3 atriði)
1) því að Jesús stofnaði altarisgönguna með innsetningarorðunum á skírdag.
2) því að í henni er sýnileg tákn, brauð og vín.
3) því hún staðfestir náð Guðs. En hún er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp.
Til að geta gengið til altaris þarf maður að vera skírður. Sú hefð er á Íslandi að börn gangi ekki til altaris fyrir fermingu, nema með foreldrum sínum. Annars mega allir ganga til altaris alltaf þegar það er í boði. Hvort sem þeim finnst þeir vera nógu góðir eða ekki. Lestu Matteusarguðspjall 11:28.

Það eina sem krafist er af þeim sem ganga til altaris er að þeir beri virðingu fyrir kvöldmáltíðinni og því sem hún stendur fyrir. Einnig þarf að játa syndir sínar áður en gengið er til altaris. Áður þurftu menn að skrifta hjá presti fyrir messu, en nú er almenn syndajátning í messunni þar sem við játum syndir okkar.
Skriftir eru tíðkaðar í okkar kirkju. Í þeim játar maður syndir sínar einslega með presti eða sameiginlega með söfnuðinum í almennum skriftum. Skriftir einslegar eru augliti til auglitis hjá presti og er hægt að panta tíma. Við notum ekki sérstakan skriftarstól. Skriftir eru í trúnaði og er prestur þá hlustandi í Krists stað. Presturinn veitir þá aflausn synda og sá sem skriftar sýnir yfirbót. Það er hreinsandi og gott að játa syndir sínar. Skrift er náðarmeðal kirkjunnar. Hin tvö eru skírn og kvöldmáltíð. Kristur stofnaði skriftirnar í Jóh. 20:21-23. Náðin er fyrirgefning synda og aflausn.
- ) Hvað þýðir sakramenti?
- ) a. Með hvaða orðum er kvöldmáltíðin stofnuð og hvenær?
b. Er efni í henni og þá hvaða?
c. Hvaða andlega blessun/náð fylgir henni?
3) a. Fyrir hvað stendur brauðið og vínið?
b. Hvað merkir það sem það stendur fyrir hvort fyrir sig?
c. Er það raunverulegt eða tákn?
4) Hvað þarf maður að gera til að mega fara til altaris?