Guðsþjónusta er þjónusta Guðs við menn. Við erum kölluð til samfélags við hann og hvert annað. Þar er samfélag trúaðra. Guðsþjónusta fer að jafnaði fram á sunnudegi, vegna þess að þá reis Kristur upp frá dauðum. Þá er hvíldardagur flestra kristinna manna. Ef altarisganga fer fram í guðsþjónustu kallast hún messa.

Hér á eftir eru útskýringar á því hvernig messa fer fram og hvað á sér stað í henni.
Messuupphaf.
Í þessum hluta guðsþjónustunnar undirbúum við okkur undir athöfnina og viðurkennum að við eigum ekki skilið náð Guðs. Guð hefur kallað á okkur og við hlýðum því kalli með því að koma til guðsþjónustu.
Klukknahringing: Klukkum er hringt til að kalla okkur til athafnar þar sem Guð þjónar okkur.
Forspil er leikið á meðan presturinn gengur inn í kirkjuna.
Signing: Þá minnumst við að Guð útvaldi okkur sem börn sín í skírninni og við erum hans. Við merkjum okkur honum þegar við komum til athafnar.
Upphafsbæn/Meðhjálparabæn: Við undirbúum okkur undir stundina með því að fela okkur Guði.
Inngöngusálmur: Í sálmasöng svörum við því sem er á undan og nú fögnum við því að Guð tekur á móti okkur.
Miskunnarbæn: Enginn er fullkominn og við eigum ekki skilið að koma fram fyrir Guð, því biðjum við hann að miskunna okkur og hjálpa.
Dýrðarsöngur: Við þökkum Guði fyrir að hann miskunnar okkur og elskar með söng englanna á jólanótt.
Heilsan: Presturinn snýr sér að söfnuðinum og heilsar honum.
Kollekta er safnaðarbæn sem er eins allstaðar, en ólík eftir dögum.


Guðsþjónusta Orðsins.
Annar hluti messunnar fjallar um Orðið. Í Biblíunni fáum við að heyra um Krist, sem er Orð Guðs. Við heyrum hvernig Guð hefur lofað að hjálpa okkur, hvernig hann efnir það í orðum, verkum, lífi og dauða Jesú Krists. Við heyrum einnig hvernig við eigum að haga lífi okkar sem svar við kærleika og hjálp Guðs. Við þökkum Guði, felum okkur og allt í hendur Guðs og biðjum.

Lexía er lestur úr Gamla testamentinu þar sem segir frá loforði Guðs.
Pistill er lestur úr einu af bréfum Nýja testamentisins, sem segir frá hvaða áhrif það hafði á fyrstu kristna þegar loforðin efndust og þau áhrif sem þau eiga að hafa á líf okkar.
Hallelújavers: Við fögnum Guði með lofgjörðarsöng því að loforð hans efndist.
Guðspjall er hápunktur þjónustu Orðsins og því rísum við á fætur. Það fjallar um orð Krists, hvernig hann efndi loforð Guðs okkur í lífi, dauða og upprisu sinni.
Trúarjátning: Við svörum boðskapi guðspjallsins með því að játa trú okkar.
Sálmur er einnig svar okkar við boðskapnum.
Prédikun á að útskýra boðskapinn til okkar sem lifum nú. Það segir hvernig vilji Guðs er gagnvart okkur í þeim aðstæðum sem við erum í.
Postulleg blessun: Sá sem prédikar biður Guð að blessa söfnuðinn og lýsir blessuninni.
Sálmur: Þá svörum við boðskap ræðunnar með sálmasöng.
Almenn kirkjubæn: Eftir að hafa hlýtt á orð Guðs svörum við boðskapnum með því að fela okkur sjálf og alla hluti í hendur Guðs. Þó Guð viti hvað við viljum áður en við hugsum, þá vill hann að við segjum honum allt, það sem við viljum og þurfum á að halda. Þannig lýkur þjónustu orðsins í messunni, að við felum allt í Guðs hendur því við getum treyst á hann.


Samfélag um Guðs borð.
Þessi hluti messunnar er um altarisgönguna. Hann er líkur máltíð Jesú og lærisveinanna á skírdag og hvað hann gerði þá, tók brauð og vín, þakkaði og gaf.
Við játum að við höfum ekki staðið okkur og að við þurfum hjálp Guðs. Við játum syndir okkar og fáum fyrirgefningu. Við fyrirgefum um leið þeim sem hafa gert á okkar hlut, því að við erum öll börn Guðs og þurfum á fyrirgefningu að halda. Við göngum síðan til altaris í samfélagi trúaðra, mætum Kristi þar og minnumst, þiggjum líkama og blóð frelsara okkar, fyrirgefningu syndanna, líf og sáluhjálp.

Syndajátnining er í raun almennar skriftir. Við játum að hafa gert margt rangt og þurfum að vera nær Guði og vilja hans. Við biðjum um fyrirgefningu. Við þurfum að bæta okkur svo, en svo er lýst fyrirgefningar Guðs.
Friðarkveðja: Eftir að Guð fyrirgefur okkur þá semjum við frið við aðra menn og fyrirgefum með því að heilsast eins og Jesús heilsaði lærisveinunum sínum með.
Sálmur/tónlist: Við syngjum í friðnum á meðan altarisgangan er undirbúin.
Upphaf þakkargjörðar: Við þökkum Guði gjafir hans.
Heilsan: Presturinn snýr sér að söfnuðinum og heilsar honum.
Heilagur: við syngjum með í söng hinna himnesku hirðsveita frammi fyrir Guði.
Þakkarbæn og Innsetningarorð: við þökkum Guði, minnum hann á fyrirheit hans og biðjum hann að blessa vínið og brauðið svo það verði blóð og líkami Krists. Við notum orðin sem Jesú notaði á skírdagskvöld.
Faðir vor er beðin sem borðbæn.
Guðs lamb: Við biðjum Jesú, sem ber syndir heimsins, að fyrirgefa okkur.
Berging: Söfnuðurinn tekur þátt í kærleiksmáltíðinni og þiggur fyrirgefningu syndanna. Þar er undirstikuð eining okkar, ein fjölskylda í Kristi. Við minnumst Krists með því að þiggja brauðið og vínið, líkama hans og blóð.
Sálmur: við svörum gjafir Guðs með söng.
Bæn eftir bergingu: við þökkum fyrir gjafir hans og biðjum að við nýtum þær vel.

Messulok.
Eftir máltíð Drottins lýkur messunni með því að við gerum okkur tilbúin fyrir daglegt líf. Í daglegu lífi þjónum við Guði, með hegðun okkar, orðum, hugsunum og bænagjörð. Fyrst tökum við á móti blessun Guðs og svörum henni með lofsöng sem þakklætisvotti.
Að lokum er kirkjuklukkum hringt og þær kalla okkur til þjónustu við Guð í okkar hversdagslega lífi utan veggja kirkjunnar. Við göngum þá út saman helguð af Guði og í sátt við Guð og alla menn.

Blessun: Við þiggjum blessun Guðs, nærð af orði hans og sakramenti tilbúin að þjóna Guði í lífi okkar.
Sálmur: er svar okkar við blessuninni.
Útgöngubæn: Þá þökkum við fyrir þjónustu Guðs og biðjum hann að helga okkur
Klukknahringing: kallar okkur til þjónustu við Guð í lífi okkar eftir þjónustu hans.
Eftirspil: Prestur og söfnuður ganga út til þjónustu við Guð í hversdaglífi sínu.
Lifandi samfélag.
Auk hinnar hefðbundnu guðsþjónustu er ýmislegt annað í boði. Guðsþjónusta með léttri nútímatónlist, kallast stundum létt- eða poppmessa. Stundum eru guðsþjónustur ætlaðar sérstaklega ákveðnum hópum, dæmi um þær eru æskulýðs- og hestamanna-guðsþjónustur. Einnig eru guðsþjónustur sem tilheyra ákveðnum hátíðum eins og jóla- eða páskaguðsþjónustur. Um tímabil kirkjuársins skaltu lesa í Kirkjulyklinum þínum. Þar getur þú séð mismunandi liti kirkjuársins. Páskar eru helsta hátíð kristinna manna. Jól og hvítasunna eru hinar tvær af helstu hátíðum kirkjuársins.
Að auki er ýmislegt annað starf á vegum kirknanna, eins og kórastarf, sunnudagaskóli og fundir fyrir eldri borgara. Allt starf kirkjunnar sameinast í sunnudagsguðsþjónustunni og þar eigum við saman samfélag, hvert með öðru og með Guði.
Við erum kirkjan og það er gott að eiga samfélag þar. Stundum er gleðin ríkjandi, stundum sorgin. Í kirkjunni eru allar helstu sorgar- og gleðistundir okkar. Þar eru börn borin til skírnar. Þar játa þau trú sína og gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns í fermingunni. Þar á kærleikurinn sinn stað í giftingu hjóna. Þar eru syrgðir ástvinir bornir til jarðarfarar áður en þeir eru bornir til grafar. Á milli þessara stunda er kirkjan opin og aðgengileg, jafnt í sunnudagsguðsþjónustunni sem á öðrum tímum.
- ) a. Hvert er hlutverk prédikunar í messunni?
b. Hvað er friðarkveðja?
c. Hvaða tilboð er til okkar í messunni, hvað græðum við á að fara í messu?
- ) Veldu einn hluta messunnar sem þú og félagi þinn kynna í guðsþjónustu.