Guð Faðir skapaði heiminn.
Lestu Sköpunarsögunar í 1. Mósebók 1-3. Takið eftir að um er að ræða tvær sögur sem eru ólíkar og lýsa sköpun okkar á mismunandi hátt. Þrátt fyrir að þær birti mismunandi sköpun, þá var það ekki vandamál fyrir þá sem lásu og trúðu. Menn nálguðust ekki vangaveltur um uppruna heims út frá því hvernig hlutirnir gerðust vísindalega, heldur miklu fremur út frá hugsuninni hvers vegna. Hver er tilgangur heimsins? Hver stendur á bak við það að heimurinn er til?

Trúarjátningin :
Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar.
Biblían birtir okkur að heimurinn er skapaður af Guði. Hann er einnig kallaður Faðir. Heimurinn er hluti af Guðs góðu sköpun, en hann er fallinn og kaus að setja sig upp á móti valdi Guðs. Það er syndin,því missir heimurinn marks. En að missa marks er merking hebreska orðsins sem er þýtt með synd.
Guð skapaði manninn í sinni mynd. Hann er því óendalega mikilvægur og dýrmætur. Maðurinn er kallaður til hlutverks. Maðurinn hefur það sama hlutverk gagnvart dýrum og náttúrunni, og Guð hefur gagnvart okkur, þannig er hann í hans mynd. Kyn, litarhaft, stærð eða annað sem greinir á milli manna skiptir engu máli. Allir eru jafn mikilvægir og dýrmætir. Við eigum að annast um að sköpun Guðs nái vaxtartakmarki sínu. Við erum ráðsmenn Guðs. Vinnan göfgar því manninn og er góð. En vegna syndarinnar misnotum við oft hlutverk okkar.
Við erum einnig sköpuð til að eiga samfélag, hvert við annað og við Guð. Án samfélagsins við Guð missir lífið þann tilgang sem hann gaf lífinu.

Hver skapaði Guð?
Sú spurning er óskiljanleg í kristinni hugsun. Því Guð er skaparinn og er því ekki skapaður. Hann er ekki hluti af sköpuninni. Því geta vísindamenn ekki fundið Guð í sköpuninni. Hann er ekki hluti af tíma og rúmi. Því er einn dagur sem þúsund ár og þúsund ár sem dagur. Því tíminn er ekki hjá honum. Lestu 90. Davíðssálm. Hins vegar á öll sköpunin upphaf sitt í honum og er það sá veruleiki sem sköpunarsögurnar birta. Hvernig hann fór að því er aukaatriði. En Guð elskar sköpun sína og vill henni vel. Hann skapaði ekki í eitt skipti fyrir öll, því sköpun hans er sístæð og hefur tilgang. Sonur hans birtir þann tilgang.

Hvers vegna er þá illt í heiminum?
Guð gaf okkur frjálsan vilja. Við erum ekki strengjabrúður. Við getum fylgt honum eða ekki. Við getum gert gott eða illt. Margt í sköpuninni getur haft illar afleiðingar. Má þarnefna snjóflóð og jarðskjálftar. Allt er þetta hluti af syndafallinu. En samt er það ekki öll skýringin. Það er erfitt að skýra hvers vegna gott fólk lendir í áföllum. Jobsbók reynir að svara því. En við skiljum ekki allt, en treystum forsjón Guðs, að hann bjargi okkur frá öllu illu og hafi sigur. Því hans er mátturinn og dýrðin og hann elskar okkur og ætlar okkur hlutverk.
1) Hvað þýðir að Guðs skapaði okkur í sinni mynd og hvaða hlutverk ætlaði hann okkur?
2) Hvað merkir synd (hebreska orðið sem þýtt er með synd)?