Skírn

Stærsta stund í lífi hvers kristins manns er skírn hans.

Í skírninni útvelur Guð þann skírða sem barn sitt. Hann útvelur það ekki vegna þess að barnið er nógu gott eða trúað, heldur því að hann elskar það og kallar það til helgunar.

Í skírninni öðlumst við fyrirgefningu syndanna. Þegar Jesús Kristur bað Jóhannes um að skíra sig (Jóhannesarguðspjall 3:13-17) vildi Jóhannes í fyrstu ekki samþykkja það, því hví ætti Sonur Guðs að þurfa fyrirgefningu syndanna. En Jesús sótti það fast og eftir skírnina kom heilagur andi og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Það sama gerist við skírn barns. Það meðtekur heilagan anda sem segir: Þetta er barn mitt sem ég elska og hef velþóknun á. Það er þó ekki þannig að barnið sé án syndar, en það á að helgast fyrir trúna á Krist.

Í fyrstu var einungis stundað niðurdýfingarskírn. Þá voru fullorðnir skírðir sem höfðu uppfyllt þrjú atriði. Skírnin fór þannig fram að skírnarþeganum var dýft að fullu ofan í vatn og reis síðan upp skírður. Táknmálið var að þegar skírnarþeginn fór ofan í vatnið dó hann syndum sínum með Kristi á krossinum og reis svo upp til nýs lífs með Kristi í upprisunni er honum var lyft úr vatninu. Nú er oftast skírt með ádreifingu.

Skírn og ferming.

Áður en menn skírðust þurftu menn að 1. þekkja trúna, 2. sýna trúna í verki og 3. játa trúna. Þegar menn höfðu uppfyllt þessi atriði fengu þeir að skírast. Þeir gátu uppfyllt fyrsta atriðið með því að fræðast hjá fræðurum kirkjunnar um trúna sem þeir áttu að skírast til. Þeir tóku þátt í starfi safnaðarins og uppfylltu þannig annað atriðið. Þeir játuðu síðan trúna í skírninni.

Þótt að sumstaðar væru leyfðar ungbarnaskírnir þá voru miklar deilur um lögmæti þeirra. Að lokum samþykktu flestar kirkjur ungbarnaskírn vegna orða Jesú eins og í Markúsarguðspjalli 10:14-15.

Það að ungbarnaskírn er leyfð er einnig mikilvægt því að hún undirstrikar að það er Guð sem velur barnið, en ekki sá skírði sem velur Guð. Það er ekki trú skírnþegans sem gerir honum kleift að skírast, né hversu góður hann er. Það er elska Guðs og köllun skírnþegans sem gerir skírnina mögulega. Ungbarnaskírn undirstrikar því náð Guðs, sem er óverðskulduð. Fullorðinsskírn getur misskilist þannig að menn þurfi fyrst að sanna sig áður en þeir eru skírðir.

Eftir að ungbarnaskírn varð almenn var kirkjan í vanda vegna þess að atriðin þrjú sem menn áður uppfylltu fyrir skírn gátu ungbörn ekki uppfyllt. Með tímanum þróuðust málin þannig að börnin uppfylltu atriðin þrjú er þau höfðu aldur og þroska til. Á Íslandi uppfylla skírð börn atriðin þrjú um fermingarveturinn sinn. Fermingarfræðslan er í raun skírnarfræðsla þar sem unglingarnir læra að þekkja trú sína (1.) Þeir sýna svo trú sína í verki (2.) með því að taka svo þátt í starfi safnaðarins. Það gera unglingarnir með því t. d. að mæta í guðsþjónustur og lifa bænalífi. Að lokum játa þau trú sína í fermingunni (3.).

Orðið ferming þýðir staðfesting, en það er ekki rétt sem sagt var að ferming sé staðfesting skírnarinnar. Það þarf ekki að staðfesta skírnina, því hún er fullgild og engu hægt að bæta við hana. Ferming er blessun og játning trúarinnar eftir að sá skírði hefur lokið við skírnarfræðsluna (fermingarfræðsluna). Ferming er ekki útskrift úr kirkjunni því að í fermingunni lofar sá sem fermist að helga líf sitt Kristi. Að lifa samkvæmt vilja hans og gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Það er mikilvægt heit sem er unnið frammi fyrir Guði og ber ekki að taka léttilega. Því ætla fermdir sér að vera virkir í trú sinni. Eftir skírnina bera foreldrar barnsins ábyrgð á að fræða barn sitt og að það lifi trúarlífi. Eftir ferminguna ber sá fermdi ábyrgð á trú sinni og trúarlífi.

Sakramenti.

Skírn er annað tveggja sakramenta íslensku Þjóðkirkjunnar. Hitt er kvöldmáltíðin. Að auki er hún náðarmeðal. Sakramenti þýðir leyndardómur. Sakramenti er helg athöfn sem þarf að uppfylla 3 atriði að mati allra lúterskra kirkna. 1. Hún þarf að vera stofnuð af Jesú. 2. Hún þarf að innihalda jarðneskt efni. 3. Henni þarf að fylgja sérstök náð, andleg gjöf.

Skírnarskipunin:

,,Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðirnar að lærisveinum, skírið þá til nafns föðurins, sonarins og heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið ykkur. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.’’


Skírnin uppfyllir þessi atriði. Í Matteusarguðspjalli 28:18-20 er skírnarskipunin. Þar sendir Jesús lærisveina út í heim til að skíra og gera allar þjóðir að lærisveinum. Þar stofnar Jesús skírnina (1.). Þeim skírða er dýft í vatn eða vatni dreift á hann. Efni skírnarinnar er því vatn (2.). Sá sem er skírður er tekinn inn í kirkju Guðs. Hann er útvalinn sem barn hans og fær aðgang að Heilögum anda. Í skírninni hefst helgun mannsins með því að hann deyr sínum gamla manni og rís upp sem nýr maður í Kristi. Skírn þýðir hreinsun og í skírninni hreinsumst við af syndum okkar eða öðlumst fyrirgefningu syndanna (3.).

Blessunarorðin:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið. Amen.

Skemmri skírn.

Ekki eru allir skírðir á Íslandi. Börn eru ekki skírð strax og sumir kjósa að láta ekki skíra börn sín. Enn aðrir tilheyra öðrum trúarbrögðum. Nú getur þurft að skíra vegna lífshættu og það næst ekki í prest. Það getur til dæmis gerst vegna slysa á heiðum og hinn deyjandi er óskírður og óskar þess að skírast. Þá er það skylda kristinna manna að skíra hinn slasaða skemmri skírn. Ef hinn slasaði lifir mun prestur staðfesta skírnina í kirkju. Því þarf í öllum tilfellum að tilkynna presti strax um skírnina. Í sálmabók eru leiðbeiningar um skemmri skírn.

Skírnarvatn skal vera hreint og helst volgt. Sá sem skírir skemmri skírn nefnir nafn barnsins, eys þrisvar með lófa sínum vatni á höfuð þess og segir um leið: Ég skíri þig í nafni föður, sonar og heilags anda, Amen. Síðan biður hann bænina Farið vor og blessar yfir barnið með blessunarorðunum. Þá er sunginn skírnarsálmur, ef því verður við komið, annars lesinn eða sleppt.

Nafngjöf.

Á Íslandi er það algengur siður að nefna ekki barn fyrr en við skírn. Það á sér rætur í frumkristni. Páll postuli hét Sál og þegar hann varð kristinn hóf hann nýtt líf sem Páll. Mun fleiri dæmi er hægt að nefna. Nafn manna er hluti af persónu þeirra og því er eðlilegt að eignast nýtt nafn við nýtt líf. Því fengu menn nýtt nafn við skírnina. Þegar farið var að skíra ungbörn þótti ekki ástæða til þess að gefa þeim fyrst nafn og síðan nýtt nafn er þau voru skírð, því var beðið með að nefna þau þar til þau skírðust. Í skírninni erum við ávallt nefnd með nafni og eru því nafn og skírn órjúfanlega bundin. Í skírninni er nafn okkar skráð í lífsins bók. Margir hins vegar rugla saman því að nefna og skíra. Maður getur verið nefndur en ekki skírður, en dýr eru nefnd en aldrei skírð. Sama á við um hluti og staði.

Að lifa í skírnarnáðinni.

Í skírninni erum við oftast klædd hvítu. Það undirstrikar það að við erum hrein í augum Guðs. Samt mistekst okkur og við hrösum. Þrátt fyrir að við deyjum syndinni í skírninni og með dauða Jesú á krossinum, þá lifir syndin enn í okkur. Því að skírnin, hreinsunin, tekur allt líf okkar. Við erum alltaf að deyja syndinni og hefja nýtt líf. Við erum kölluð til að fylgja Kristi og helgast fyrir trúna á hann með hjálp Heilags anda. Lífið er því stöðug barátta okkar gamla lífs og hins nýja. Við treystum Guði til þess að hafa sigur og við fylgjum honum. Því er skírnin aðeins framkvæmd einu sinni og er sístæð allt lífið.

Okkar er að lifa í skírnarnáðinni með því að afneita öllu sem heldur lífi í okkar gamla manni, því sem eflir syndina og því sem er illt. En einnig að efla allt það sem nærir okkar nýja líf. Það gerum við með því að leyfa kærleikanum að stjórna hjarta okkar. Með því að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs okkar, með samfélagi við hann, lifa bænalífi, hlusta á Orð Guðs með lestri Biblíunnar og uppbyggjast í samfélagi trúaðra, með því að eiga samfélag með öðrum trúuðum.

1) a. Með hvaða orðum er Skírnin stofnuð? b. Er efni í henni og þá hvaða? c. Hvaða andlega blessun/náð fylgir henni? d. Er skírnin sakramenti?

2) a. Er fermingin stofnuð af Jesú? b. Er efni í henni og þá hvaða? c. Hvaða andlega blessun/náð fylgir henni? d. Er fermingin sakramenti?

3) a. Hvaða atriði þurfti að uppfylla fyrir skírn áður en ungbarnaskírn var leyfð? b. Hvenær eru þau uppfyllt i dag og hvernig? c. Hvernig tengjast skírn og ferming? d. Er ferming staðfesting skírnarinnar?

4) Lærðu skírnarskipunina.